Hafnarfjarðarhöfn semur um landtengibúnað

Hafnarfjarðarhöfn semur við PSW Power and Automation um kaup á búnaði fyrir öflugar lágspennutengingar í Hafnarfjarðahöfn.

Nú er búið að semja um kaup á öflugum búnaði fyrir landtengingar í Hafnarfjarðarhöfn. Samningar voru undirritaðir eftir mikla undirbúningsvinnu sem Sætækni ehf hefur haft umsjón með og unnið í samstarfi við J2B Ráðgjöf ehf.

Búnaðurinn var boðinn út á Evrópska efnahagssvæðinu. Útboðið var auglýst með forvalsfyrirkomulagi eins og gert er ráð fyrir í lögum nr. 120/2016 gr. 54. Ríkiskaup sá formlega um útboðið.

Sex aðilar sýndu útboðinu áhuga og fengu aðgang. Þrjú tilboð bárust og tilboð frá norska fyrirtækinu PSW Power and Automation var lægst en það var yfir 20 milljónum kr. lægra en næstlægsta tilboð.

Eftir ítarlega skoðun á tilboði og búnaði frá fyrirtækinu eru aðilar sammála um að hér sé boðinn gæða búnaður.

Búnaðurinn samanstendur af tveimur gámum með spennum og tíðnibreytum ásamt umfangsmiklu kapalkerfi. Búnaðurinn verður klár til notkunar í Hafnarfjarðarhöfn næsta vor.

Einnig er hægt að sjá hér um staðfestingu Hafnarstjórnar á kaupum á búnaði ásamt frétt á heimasíðu Hafnarfjarðarhafnar.